steinsson.org

Um mig

jonasForeldrar mínir eru Steinn Björgvin Jónasson, eldvarnareftirlitsmaður í Fjarðabyggð og María Ósk Óskarsdóttir, skrifstofudama hjá bæjarskrifstofum Fjarðarbyggðar.

Ég er alin upp á Fáskrúðsfirði, þar sem foreldrar mínir og Guðbjörg, systir mín, búa enn, en utan þeirra tilheyra tveir bræður minni nánustu fjölskyldu, þeir Daði Már og Ingvi Steinn.

Ég var að miklu leyti alin upp hjá ömmu minni og afa, þar sem foreldrar mínir áttu mig á unglingsaldri, en þar lærði ég að lesa, skrifa, glamra á gítar og syngja.

Ég var mikill frjálsíþróttamaður sem barn og unglingur, var jafnvígur á hlaup og stökk og átti meðal annars íslandsmeistaratitla í 800 metra hlaupi og hástökki, auk þess að eiga íslandsmet í hástökki drengja 11 til 12 ára árið 1986.

Eftir grunnskólann leitaði ég suður í Kópavog eftir frekari menntun en eftir 2 ár í borg óttans ákvað ég að klára námið frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Allann tímann sem ég var í menntaskóla var hugurinn allsstaðar annarsstaðar. Ég var búin að bíta í mig að það væri geggjað gaman að vinna sem áhættuleikari og því eyddi ég miklum tíma í að stúdera þau fræði auk þess sem ég, í samvinnu við skólafélaga mína, tók upp nokkrar stuttmyndir og auglýsingar, sem mér skilst að séu ennþá umræddar í skólunum.

Á Egilsstöðum var ég gripin inn í hljómsveit sem kallaði sig 'Benjamín á bjöllunni'. Þar sem ég hafði fram að þessu bara spilað á gítar í hljómsveitum mætti ég á svæðið með gítarinn minn góða, en var strax beðin um að láta hann frá mér og taka upp míkrafóninn. Eftir þetta varð míkrafónninn áhald sem var aldrei langt frá mér, amk. næstu 2 árin eða svo.

Árið 1996 flutti ég suður aftur og freistaði þess að læra söng, fyrst hjá Ingveldi Yrr sem þá kenndi við Nýja Mússíkskólann sem var rekinn af Birni Thoroddssen, Stefáni Stefánssyni og fleirum, en síðar nam ég hjá Jóni Þorsteinssyni óratoriutenór sem kenndi við Nýja Tónlistarskólann.

Eftir 2 ár af Reykjavík lá leiðin austur á Fásk í rúmt ár, þar sem ég tók þátt í að skapa götuleikhús Franskra Daga á Fáskrúðsfirði. Það má eiginlega segja að kaflaskil hafi orðið í mínu lífi á þessum tímapunkti, en þarna breyttist löngun mín í nám í áhættuleik í löngun í sirkusnám.

Eftir Fáskrúðsfjarðardvölina flutti ég til Akureyrar. Þar gekk ég í götuleikhús sem bar nafnið 'Götuleikhús Jokku', en á þeim tímapunkti sem ég var að kynnast því starfi var götuleikhúsið því miður í andaslitrunum. Það bar svo skemmtilega til að sænski sirkusinn Cirkus Cirkör hélt námskeið bæði í Reykjavík og á Akureyri sumarið eftir að götuleikhúsið hætti og upp úr því námskeiði spratt 'Circus Atlantis'.

Þegar ég hafði búið á Akureyri í 4 ár og unnið hin ýmsu láglaunastörf ákvað ég að nú skyldi strákurinn drífa sig aftur í skóla. Ég skráði mig í nám við Háskólann á Akureyri, fyrst á 'Tölvunarfræðibraut rekstrardeildar' en sú deild lifði aðeins í eitt ár og var þá innlimuð í 'Tölvunarfræðideild'.

Ég kláraði B.Sc. gráðu í tölvunarfræðum í apríl 2004 og vildi svo skemmtilega til að það rímaði akkurat við algert hrun á atvinnumarkaði tölvunarfræðinga. Við sátum því uppi nokkur stykki, atvinnulaus og sáum ekki fram á að geta nýtt námið, amk. ekki í fyrstu.

Ég hélt áfram sirkusæfingum og á tímabilinu 1999 til 2004 var Circus Atlantis með æfingar tvisvar í viku. Kjarni hópsins voru 8 afskaplega ákveðnir og hæfileikaríkir einstaklingar sem létu vantrú íslenskrar alþýðu á að sirkuslistir myndu nokkurntíman hljóta fylgi á íslandi ekki stöðva sig. Meðlimafjöldi hópsins fór, þegar mest var, upp í 35 manns á aldrinum 9 ára til þrítugs. Ég fór á hverju sumri frá árinu 2002 til 2006, í víking til svíþjóðar, þar sem ég sótti námskeið og ráðstefnur á vegum Cirkus Cirkör og Cirkusringarna, sem voru samnorræn samtök áhugafólks um sirkuslistir. Meðal þess sem ég afrekaði á þessum tíma var að fá prentaða um mig lofgrein í Hallandsposten vegna eins manns eldsýningar sem ég setti upp í Halmstad, auk þess að kenna á nokkrum námskeiðum, bæði eldlistir og contactjoggl. Circus Atlantis stendur enn fyrir námskeiðum og sýningum, þó að eini fasti punkturinn í starfi hópsins nú orðið séu námskeiðshald og sýningar í kring um Franska Daga á Fáskrúðsfirði.

Árið 2005 fékk ég starf í Reykjavík, þangað sem ég flutti og bý enn. Ég vann um stund á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar en réði mig síðan sem tæknimann til Vodafone og fór svo þaðan yfir til Mömmu ehf, þegar það fyrirtæki var stofnað upp úr tæknideild Vodafone.

Árið 2007 var ég ráðin sem forritari, Joomla sérfræðingur og kerfisstjóri til Reykjavíkurborgar, gagngert til að sjá um vefi grunn- og leikskóla og vefþjóna sem þeim tengjast. Þar starfa ég enn og líður bara bærilega.

Árið 2008 ákvað ég að halda áfram að mennta mig og skráði mig því í hlutanám í Háskóla Íslands og stefni á, með tíð og tíma, að klára þaðan meistaragráðu í tölvunarfræðum.

Um svipað leiti hitti ég aftur gamlan félaga sem ég hafði ekki séð í ein 15 ár, eða síðan ég nam við Nýja Mússíkskólann á sínum tíma. Það vildi bara svo skemmtilega til að Haraldur Leonhardsson, trommari og atvinnubílstjóri var fengin til að færa mér tölvubúnað sem vantaði í vopnabúrið okkar. Halli bað mig að kíkja á æfingu hjá hljómsveit sem hann hafði stofnað nokkru áður og sagði að væri bara nokk ágæt. Ég lét til leiðast og til að gera langa sögu stutta er míkrafónninn komin upp úr töskunni hjá mér og bandið búið að taka upp 4 ágætis lög undir nafninu 'Góðir Landsmenn'.

Í dag er ég talin einn af helstu sérfræðingum landsins í Joomla umsýslukerfinu og hef nú þegar átt hlut í hönnun, uppsetningu og vinnslu yfir 300 vefja. Ég bý í miðbæ Reykjavíkur og reyni að labba eða hljóla í vinnuna þegar veður gefst.

Eiginkona mín heitir Saga Ólafsdóttir og er nuddari, sjúkraliði, sagnfræðinemi og snillingur. Við eigum saman einstaklega fallegan lítinn strák sem heitir Hugi Þór og hund sem heitir Nói.