steinsson.org

Besti ritillinn fyrir Joomla?

 

Ég hef oft verið spurður að því hvaða ritill sé bestur fyrir Joomla. Eins og við vitum er Joomla og viðbæturnar við kerfið í stöðugri þróun. Það sem er best í dag þarf ekki endilega að vera það besta í boði á morgun. Annað sem þarf að taka til skoðunar er að þarfir notenda eru afskaplega mismunandi.

Joomla umhverfið sem ég vinn með inniheldur vefi af ýmsum stærðum og gerðum. Allt frá litlum, einföldum skráningarvefjum fyrir viðburði, upp í stóra vefi sem gefa nokkrum vefstjórum kost á að setja inn talsvert mikið af alls konar efni á hverjum degi.

Við höfum, eftir talsvert hark, komist að því að aðeins einn ritill er í raun nógu sveigjanlegur til að henta slíku umhverfi, enn sem komið er. Ritillinn heitir Joomla Content Editor, eða JCE (http://www.joomlacontenteditor.net/).

JCE er einföld, en öflug ritilslausn beint úr kassanum, sem hentar all-flestum notendum. Þegar við síðan bætum við þeim viðbótum sem JCE teymið hefur sett saman (þessar viðbætur kosta, en JCE teymið hefur greinilega lagt talsverða hugsun og vinnu í þær), verður ritillinn að öðru og miklu öflugra gagnaumsýsluumhverfi. Skjalavinnsluumhverfið þeirra (JCE Media Manager) er til dæmis svo öflugur og þægilegur að hann gerir innbyggða skjalavinnslukerfið í Joomla (Joomla Media Manager) algerlega óþarfann.

Ef þú ert að vinna með vef sem sem þarf að reikna með mismunandi ritilsnotkun fyrir mismunandi notendahópa. Ef þú þarft að gera ráð fyrir því að notendur þurfi að vinna talsvert með hljóðskrár, myndbönd, myndir og skjöl fyrir vefinn. Ef þú vilt gera greinahöfundum kleift að nýta öflug en einföld 'drag-and-drop' upphleðslutól sem höndla upphleðslu margra skráa í einu og eru innbyggð í greinaritilinn, skaltu ekki hika við að borga þessar 20 evrur (um það bil 3300 kall) sem JCE teymið rukkar fyrir viðbæturnar við ritilinn og njóttu þess að hafa ánægða notendur að vefnum.
    
ATH!
Hægt er að uppfæra JCE í gegn um uppfærsluviðbótina sem er innbyggð inn í Joomla. Þessi aðferð er ljómandi fín ef aðeins er verið að nota grunn ritilinn, án allra aukaviðbóta. Ef verið er að nota keyptu viðbæturnar þarf að hafa í huga að þær uppfærast ekki sjálfkrafa um leið og ritillinn er uppfærður í gegn um uppfærsluhnappinn í Joomla.
Ef uppfærsla á JCE 'brýtur' virknina á bak við keyptu viðbæturnar (til dæmis JCE Media Manager) þarf að fara inn á vefinn hjá JCE og hlaða niður nýjum útgáfum af keyptu viðbótunum og setja þær inn upp á nýtt. Annað sem hægt er að gera er að setja aftur inn eldri útgáfuna af JCE.